149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:46]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, þetta er líklega rétt hjá hv. þingmanni. Ég verð að viðurkenna að það er veruleg hætta á að þetta geti haft slík áhrif, sérstaklega þegar það bætist við þá staðreynd að ESA hefur því miður of oft verið í því hlutverki að verja hagsmuni Evrópusambandsins gagnvart Íslandi og nægir þar að nefna framgöngu stofnunarinnar varðandi Icesave og svo nýjasta dæmið sem varðar innflutning á hráu kjöti og ógerilsneyddum matvælum. Þegar þetta bætist við hlýtur það að vera áhyggjuefni hvað varðar viðhorf til þessarar stofnunar á Íslandi. En þar með er ekki öll sagan sögð því að það sem ég óttast er að þetta muni ekki einungis hafa neikvæð áhrif á ESA heldur á sjálfan EES-samninginn.

Ef stjórnvöld halda þannig á málum að þau fari að leyfa þá túlkun á EES-samningnum að hann heimili yfirráð erlendrar stofnunar, raunveruleg yfirráð þótt hún sé í gegnum millilið, noti ESA með þeim hætti, er mjög raunveruleg hætta á því að það geti haft í för með sér neikvæðari viðhorf í garð EES-samningsins. Svoleiðis að þegar menn fullyrða að samþykkja þurfi þriðja orkupakkanna til að verja EES-samninginn eru þeir að snúa hlutunum á haus. Það að samþykkja þriðja orkupakkann er til þess fallið að veikja EES-samninginn og stöðu Íslands innan hans.