149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við komum hingað enn og aftur og ræðum fundarstjórn forseta. Það er í fersku minni að forseti sagði rétt fyrir miðnætti að þessu færi senn að ljúka — og nú er klukkan orðin korter yfir fimm. En það sem ég vildi benda sérstaklega á, herra forseti, er að hingað komu fjölmargir þingmenn um og í kringum miðnætti og óskuðu eftir því að fundi yrði frestað. Fjölmargir. Það voru, held ég, tveir frekar en þrír þingmenn stjórnarliðsins sem óskuðu eftir því að fundi yrði áfram haldið.

Og þá spyr ég: Hverra erinda gengur forseti í þessari fundarstjórn þegar hann ákveður að halda fundi til streitu? Gengur hann erinda stjórnarliðsins í þessum efnum? Er forseti ekki þingforseti allra þingmanna? Og er ekki rétt að horfa til þess að það voru mun fleiri þingmenn sem óskuðu eftir því að (Forseti hringir.) fundi yrði frestað? Hvers vegna var ekki horft til þess? Er það þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sem ræður hér og segir forseta fyrir verkum? Er það svo, herra forseti?