149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þetta er að sjálfsögðu mjög athyglisvert. Ég held að þetta sé bara ágætisrannsóknarefni, eins og t.d. bara í stjórnmálafræði, hvernig menn geta skipt um skoðun í svona efnum án þess að færa fyrir því haldbær rök. Ég þekki ágætlega til í grasrót Framsóknarflokksins og á þar marga góða vini og hef rætt þetta mál við þá. Það verður að segjast eins og er að að þeir eru afar ósáttir og skilja ekki þá vegferð sem flokkurinn er á í þessum efnum.

Ég vil meina að svokallaðir þungavigtarmenn innan flokksins, eins og stundum er nefnt, eru mjög ósáttir við þessa framkomu forystu Framsóknarflokksins. Maður veltir því fyrir sér hvað veldur. Er eitthvað í þessu máli sem þeir vita sem við vitum ekki? Auðvitað veltir maður því fyrir sér. Maður skyldi ætla að þeir vildu nú koma öllu því á framfæri sem þeir mögulega geta til að geta þá rökstutt það fyrir sínu fólki og almenningi hvers vegna fara beri í þessa vegferð sem svo margir eru á móti.

Eins og ég segi vekur mann til umhugsunar og auk þess held ég að forystumenn stjórnmálaflokks eins og Framsóknarflokksins geri sér ekki alveg grein fyrir því hvaða afleiðingar þetta getur haft í fyrsta lagi fyrir þjóðina og komandi kynslóðir og líka bara fyrir stjórnmálaflokk þeirra og stjórnmálastarf. Þeir vakna kannski upp við vondan draum einn góðan dag þegar þeir sjá að flokkurinn er bara horfinn.