149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það eru náttúrlega sláandi tölur sem hv. þingmaður nefnir. Ég vissi ekki satt best að segja að svo hátt hlutfall gesta sem kom fyrir utanríkismálanefnd hefði lýst sig andsnúið þessum áformum ríkisstjórnarinnar og þessum orkupakka, að innleiða hann. Þannig að þetta eru sláandi tölur, 70%, sem segja nú sína sögu og bara ótrúlegt að ríkisstjórnin skuli ekki taka tillit til þessa og fara betur yfir málið, a.m.k. fresta því þá fram á haustmánuði og fara betur yfir það, fá fleiri gesti o.s.frv. og sýna í verki vönduð vinnubrögð.

En við sjáum þessi vinnubrögð í fleiri málum. Við sáum þetta í fóstureyðingarmálinu þar sem Miðflokkurinn óskaði sérstaklega eftir því að fá fleiri gesti. Á það var ekki hlustað. Meira að segja óskaði a.m.k. einn stjórnarþingmaður sérstaklega eftir því að það yrði farið nánar yfir og reynt að ná sáttum varðandi viknafjöldann sem við ræddum mikið. Á það var heldur ekki hlustað. Þannig að þessi vinnubrögð eru mjög einkennileg og þinginu alls ekki til framdráttar.

Við þingmenn og forseti þingsins verðum að sameinast um að að bæta stöðu okkar gagnvart almenningi, að almenningur fái aukið traust á störfum Alþingis. En hér er allt gert í þveröfuga átt við það. Og vinnubrögð, eins og þessi þingfundur hér og hvernig þingforseti hefur hunsað okkur (Forseti hringir.) varðandi fundartímann, (Forseti hringir.) er náttúrlega bara til að sýna almenningi að (Forseti hringir.) hlutirnir fara versnandi hér, ef eitthvað er.