149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:45]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Nú er tekið að birta að morgni. Vormorgnar eru oft fallegir í kyrrð sinni. Ég labbaði hér á milli húsa áðan og hitti fyrsta morgunhanann á morgungöngu sinni. Það er auðvitað óeðlilegt að vera að ræða þetta mál á þessum tíma sólarhrings en ég kveinka mér ekki undan því. Við ræðum mikilvægt mál sem sannarlega snertir þjóðarsálina.

Á fyrri hluta síðustu aldar hófum við Íslendingar að virkja og gera smávirkjanir víða um land, sérstaklega á Suðurlandi. Síðan jókst þetta með árunum þangað til við tókum upp á því að virkja stærri ár og síðan fljót, síðan stóru fallvötnin, jökulárnar. Upp úr miðri síðustu öld byrjuðum við að reisa stórvirkjanir og seldum þá orku sem við beisluðum með því móti til stóriðju. Það var þarna sem það greyptust í þjóðarvitundina að við værum virkilega svo lánsöm að eiga næga orku í þessu landi.

Það er e.t.v. ástæðan fyrir því að mikill meiri hluti þjóðarinnar hefur sterkar skoðanir á orkuauðlindinni og ráðstöfun hennar, og geldur varhug við því ef menn boða einhvers konar grundvallarbreytingar á skipan þeirra mála. Að sjálfsögðu. Menn þekkja átökin um fiskveiðiauðlindina sem staðið hafa í áratugi. Mikill meiri hluti þjóðarinnar lætur sig auðlindamál varða. Fallorkan er ein mikilvægasta auðlind okkar, ef ekki sú allra mikilvægasta. Um það getum við öll verið sammála.

Frá upphafi var auðvitað hugmyndin að þegar þessi fjárfesting, sem risavaxin í samanburði við okkar litla þjóðfélag, væri uppgreidd mundi þjóðin njóta ávaxtanna og íbúarnir horfðu fram á bjartari framtíð og lægri orkureikninga. Síðar komu fleiri stórvirkjanir og fleiri stóriðjur, sem framleiddu reyndar flestar sömu vöruna, en íbúarnir féllust á að þetta væru í raun fórnir sem vert væri að færa þar sem næstu kynslóðir myndu njóta góðs af.

Stórvirkjanirnar voru frá upphafi í eigu þjóðarinnar, sem og dreifikerfið. Við höfum notið þess að raforka er tiltölulega ódýr hér á landi. Við eigum að standa vörð um þessi verðmæti sem fyrri kynslóðir hafa byggt upp í okkar þágu til framtíðar.

Það hefur verið stefna íslenskra stjórnvalda til margra áratuga, alveg sama hver hefur verið við stjórnvölinn, að nýta raforkuauðlindir landsins til uppbyggingar atvinnulífs á Íslandi og til að styrkja byggð í landinu. Það hefur verið grundvallarstefna stjórnvalda í viðleitni þeirra til að auka fjölbreytni í efnahagslífi þjóðarinnar sem hefur verið mjög einhæft og mjög háð t.d. fiskveiðum.

Þessi stefna stjórnvalda, sem mestmegnis hefur verið samstaða um, hefur gengið undir nafninu stóriðjustefna og á sér 50 ára. sögu. Stóriðjustefnu felur í sér að vatnsfallsvirkjanir á Íslandi eru byggðar til að framleiða rafmagn sem selt er innan lands ódýru verði til stóriðju í eigu erlendra aðila. Þetta hafa menn gert og neyðst til að gera, að selja orkuna fremur ódýrt í þeirri fullvissu að arðurinn myndi koma til þjóðarinnar síðar. Þá væri hægt að lækka verð á raforku. Það er svona svipað og þegar olía finnst í litlu, fámennu landi. Auðvitað er olía á slíkum stöðum ódýr. Íbúarnir njóta þess, njóta auðlindanna.

Þannig var hugsunin þegar við hófum að byggja þessar virkjanir og selja til stóriðju, að við myndum borga þær niður og njóta góðs síðar meir. Búrfellsvirkjun, sem tekin var í notkun árið 1969, markar upphaf stóriðjustefnunnar, en hún var fyrsta stórvirkjun Íslendinga og byggð til að sjá álveri í Straumsvík fyrir rafmagni. Síðan hafa nokkrar stórvirkjanir verið reistar.

Síðasta stórvirkjunin var 690 megavatta virkjun við Kárahnjúka á hálendi Íslands, norðan Vatnajökuls, og var tekin í notkun 2007, en virkjunin sér álveri Alcoa á Reyðarfirði fyrir raforku. Sú uppbygging og uppbygging virkjananna er hluti af byggðastefnu stjórnvalda sem einnig er áratugagömul og fylgt hefur verið samsíða þessari stefnu, þ.e. virkjanastefnunni, stóriðjustefnunni og byggðastefnunni. Það hefur verið samsíða. Auðvitað er landsmönnum annt um framtíð þessarar auðlindar, auðvitað láta þeir sig það varða þegar boðað er að hér komi lagasetning sem smíðuð er úti í Evrópu og við ætlum að innleiða. Auðvitað lætur fólk sig það varða og hefur athugasemdir við það, réttilega. Að sjálfsögðu. Það er svo augljóst og svo einfalt að átta sig á því, enda kemur í ljós að flestir hafa skoðun á þessu. Það eru fáir sem láta sig þetta engu varða.

Og við höfum skoðanir hér, sem betur fer, þó að við þurfum að tala fyrir einungis morgunhana sem eru vaknaðir. Umsagnir í þessu máli til utanríkismálanefndar voru rétt um 50, held ég. Ég fann þær nú reyndar ekki allar í því sem ég opnaði en langflestar voru umsagnirnar neikvæðar. Ég taldi það saman. Það má vera að ég hafi ekki talið það alveg rétt, en það voru 13 jákvæðar og 32 neikvæðar.

Ég ætla ekki að segja að þetta séu opinberar tölur, en það er nærri lagi eftir því sem ég las það yfir.

Það sem er áhugavert við að lesa þessar umsagnir eru nokkrir hlutir. Í fyrsta lagi senda margir einstaklingar inn umsagnir. Þeir eru langflestir á móti orkupakkanum, telja sig ekki eiga að innleiða þetta. Síðan er það næsti flokkur, sem eru stofnanir; raforkufyrirtæki, orkufyrirtækið, veitufyrirtæki. Þær eru yfirleitt alltaf jákvæðar. Opinber fyrirtæki, sem eru reyndar ekki mörg, eru líka jákvæð, þ.e. stofnanir á vegum ríkisins.

Hins vegar vekur athygli mína að sveitarfélög, sem eru reyndar ekki ýkja mörg en nokkur þó, eru öll neikvæð, ef ég hef lesið þetta rétt yfir. Það er athyglisvert. Menn hafa áhuga á þessu máli. Einstaklingar hafa áhuga á því, gjalda varhug við því, sveitarfélögin úti á landi gjalda varhug við því en ríkisstofnanirnar fagna málinu og hvetja til að það verði samþykkt.

Ég ætla nú ekki að lesa þetta allt saman upp hérna.

Með tilliti til skoðanakannana fær þetta mig til að hugsa um það sem einhverjir hafa stungið upp á og margir talað um: Þetta er akkúrat hentugt mál til að fara með í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er mjög hentugt í það. Menn hræðast það að sjálfsögðu. Ég skil það. En hverju myndum við fá áorkað með því að setja þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu? Við myndum skapa umræðu. Það yrði heljarinnar umræða, bæði með og á móti. Málið yrði upplýst. Málið myndi fá mikla umfjöllun úti í þjóðfélaginu, í miðlum, netmiðlum og blöðum, sjónvarpi, viðtalsþáttum, auglýsingum og hvaðeina. Skoðanir yrðu skiptar, að sjálfsögðu.

Ég segi það. Þetta er akkúrat málið sem fara ætti í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég er ekki einu sinni hálfnaður með ræðu mína, herra forseti, og vil endilega að forseti setji mig aftur á mælendaskrá því að ég sé að tími minn er að klárast.