149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

um fundarstjórn.

[17:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Mig rekur ekki minni til þess að máli sem samþykkt var hér rétt áðan til þess að verða síðan sett á dagskrá, sé síðan kippt út. Ég átta mig bara ekki á þessum sinnaskiptum og dagskrárvaldi og verð að taka undir með þingmönnum sem hafa komið upp og undrast þetta. Samkomulag var um að mæla fyrir frumvarpi um útlendinga, þ.e. Útlendingar (alþjóðleg vernd og brottvísunartilskipunin), sem er mikilvægt mál. Mér skilst að það hafi átt að koma því til nefndar, fara með það í umsagnaferli. Ég veit alveg að menn munu ekki leggjast hér í langar ræður, en ég skil engu að síður ekki þann ótta við að setja þetta mál á dagskrá. Ég tek undir með þeim sem hvetja hæstv. forseta til að endurskoða þessa ákvörðun og setja mál nr. 4 aftur á dagskrá. Við vorum búin að samþykkja það fyrr í dag og þá má spyrja: Hefur forseti heimild til að taka málið út af dagskrá fyrst þingið var búið að samþykkja það hér fyrr í dag?