149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

um fundarstjórn.

[17:27]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur af því að ég var á næturvaktinni í síðustu viku með hv. þingmönnum Miðflokksins sem kvörtuðu oft yfir því í fundarstjórn forseta að sú umræða færi fram að nóttu til. Það var kvartað oft og mörgum sinnum þá nótt yfir því að sú umræða færi fram að nóttu til og þess vegna undra ég mig á því að nú sé kvartað yfir því að þriðji orkupakkinn fari fyrr af stað því að enn er bjart úti og svo lengist dagurinn auðvitað frá degi til dags nú að vori til. Ég held að það ætti bara að fagna því að verið sé að byrja umræðuna strax og sé ekki ástæðu til annars en að gera það. Ég veit að hv. þingmenn hafa óskað eftir því að ræða málið betur og koma mun fleiri sjónarmiðum áleiðis þannig að ég sé ekki af hverju ekki ætti að vera ástæða til að byrja að ræða þetta mál í dagsbirtu eins og óskir voru um, fjölmargar, í síðustu viku.