149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

um fundarstjórn.

[17:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil ítreka að það er mikilvægt að ræða frumvarp um breytingu á lögum um útlendingamál. Það frumvarp skiptir miklu máli og allar tafir koma til með að kosta ríkissjóð, vegna þess að tilgangur frumvarpsins er að flýta málsmeðferð slíkra mála. Það eru allir sammála um að brýnt sé að gera. Þetta er málaflokkur sem kostar ríkissjóð háar upphæðir. Á fjárlögum núna eru áætlaðir 3,6 milljarðar kr. í málaflokkinn og sú upphæð fer stöðugt hækkandi. Dómsmálaráðuneytið kom fyrir fjárlaganefnd og lýsti því yfir að jafnvel þyrfti 2 milljarða til viðbótar á þessu ári.

Þetta frumvarp, sem stóð til að ræða og var á dagskrá og samkomulag var um, snýst einmitt um að flýta málsmeðferð. Það er hagur allra, hagur þeirra sem leita eftir alþjóðlegri vernd, hagur stjórnvalda en fyrst og fremst kemur það til með að draga úr kostnaði við þann mikilvæga málaflokk. Slíkar tafir, að málið fari ekki til nefndar, geta kostað ríkissjóð (Forseti hringir.) hundruð milljóna, höfum það í huga. Er eitthvert ósætti milli stjórnarflokkanna? Eru Sjálfstæðismenn sáttir við þessa meðferð? Ég spyr.