149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

um fundarstjórn.

[17:41]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Það ber margt að sama brunni þessar vikurnar og mánuðina að samskiptin á milli ríkisstjórnarflokkanna séu á köflum ekki eins góð og æskilegt væri hvað upplýsingaflæði varðar.

En mig langar til að vita, í ljósi þeirra útskýringa sem hæstv. forseti kom með á því hvers vegna málið er tekið af dagskrá rúmum einum og hálfum tíma eftir að greidd voru atkvæði sérstaklega um að það sé tekið á dagskrá eins og það var á prentuðu yfirliti þingsins í byrjun þingfundar, hver þessi þrjú mál eru. Bara svo það fari ekkert á milli mála vil ég óska eftir því að hæstv. forseti upplýsi þingheim um hvaða þrjú mál það eru sem ráðherrar hafa fengið tekin hér inn með þessum hætti sem ekki er ætlunin að afgreiða á þessu þingi? Það einfaldar vinnu í nefndum vissulega frá því sem annars gæti orðið.