149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:48]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hann vitnaði í málsgrein á bls. 25 úr áliti téðra fræðimanna. Lok þeirrar málsgreinar hljóða svo:

„ … en við þær aðstæður mundi reyna á umrætt valdframsal til ESA, einkum samkvæmt reglugerð nr. 713/2009.“

Og með leyfi forseti:

„Engin heimild er til þess að taka í lög ákvæði sem ekki fá staðist íslenska stjórnarskrá þó að svo standi á að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn. Verður því að telja rökrétt og raunar óhjákvæmilegt að tekin sé afstaða til stjórnskipulegra álitaefna sem tengjast þriðja orkupakkanum nú þegar og það áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann.“

Gefum okkur að við myndum samþykkja þessa tilskipun hér í dag með þingsályktunartillögu, þá á eftir að taka afstöðu til þessa. Tímaröðin er með öðrum orðum röng. Af því hef ég áhyggjur. Ég kemst bara ekki alveg yfir það að það sé svo erfitt að fá það fram hér í ræðustól Alþingis, frá þeim sem hafa kynnt sér þetta allt í þaula og vita algerlega um hvað málið snýst, á meðan við Miðflokksmenn virðumst vera orðnir einir eftir á skútunni og virðumst hvorki skilja upp né niður í þessu eftir því sem maður heyrir úr þessum ræðustól. Hvers vegna var lakari leiðin valin, lakari leiðin sem lögð var til af hálfu þessara fræðimanna? Leiðin sem var talin gölluð var valin. Og svo er ákveðið, fyrirgefið orðbragðið, að klæmast á stjórnarskránni með því að setja inn einhverja fyrirvara sem (Forseti hringir.) enginn getur sagt okkur hvort standist. Hefur verið rýnt í það?