149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:10]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er farið að tíðkast í þinginu að þakka öðrum hv. þingmönnum iðulega fyrir ræður eða andsvör jafnvel þegar ekki er tilefni til. En nú tel ég sérstakt tilefni til að þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar, vegna þess að bréfið sem hv. þingmaður nefndi er einmitt til þess fallið að draga fram það grundvallaratriði í þessu máli öllu að eigi þessir fyrirvarar að halda hvað varðar stjórnarskrána þá þurfi þeir að þýða það að innleiðingin eigi sér í raun ekki stað, og, með öðrum orðum, vandamálinu sé frestað, sem er í sjálfu sér mjög sérkennileg nálgun hjá ríkisstjórn, að reyna að koma máli í gegnum þingið með þeim hætti að það ætli að samþykkja eitthvað, eða eigi að samþykkja eitthvað, en um leið að samþykkja að það taki ekki gildi, eigi ekki við, og þar af leiðandi fresta vandanum.

Gallinn við þessa leið er hins vegar sá að það er viðbúið í ljósi reynslunnar, í ljósi sögunnar, að þegar menn, eins og ríkisstjórnin boðar, innleiða þennan orkupakka að fullu hafi athugasemdir í greinargerð, um að þetta þing myndi mjög gjarnan vilja fá að fjalla um málið síðar, mjög lítið að segja.

En það var mjög gott að hv. þingmaður skyldi einmitt vekja máls á þessu atriði, það sýnir fáránleika þessa máls að stjórnvöld skuli vera að reyna að innleiða eitthvað en um leið vonast til að það taki ekki gildi og þar af leiðandi vakni ekki þessar spurningar um áhrif á stjórnarskrána. Ef menn eru raunverulega að innleiða, eins og þeir virðast leggja mikið á sig til að gera hér, þá eru þeir að innleiða. Þá er þetta innleitt í íslensk lög og þá gilda ákvæði EES-samningsins.