149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:48]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Mig langar í þessari ræðu minni, þó að það sé örlítið úr takti við það hvernig ég lauk máli mínu aðfaranótt föstudags, að hrósa ákveðnu framtaki sem birtist, að ég held, á opnu í Fréttablaðinu í morgun þar sem á þriðja hundrað manns auglýstu og hvöttu m.a. okkur þingmenn, eða ég skildi það þannig, til að standa okkar plikt til að tryggja að alþjóðlegt samstarf, sérstaklega í Evrópumálum á grundvelli EES-samningsins, væri með forsvaranlegum hætti.

Í auglýsingunni í morgun segir, með leyfi forseta:

„Við styðjum áframhaldandi aðild Íslands að EES-samningnum. Við viljum frjálst, opið og alþjóðlegt samfélag.“

Ég held að það sé góðra gjalda vert að þessi stóri hópur taki sig saman og sendi þessa brýningu til okkar þingmanna. Það er auðvitað ekki hægt að skilja það öðruvísi en svo að í þessu felist að áfram verði haldið á braut alþjóðlegs samstarfs og tryggt að alþjóðlegt samstarf, sem við tökum þátt í hér eftir sem hingað til, verði á jafnræðisgrunni. Það dettur engum í hug að þessi stóri hópur sé að auglýsa á heilsíðuopnu með það fyrir augum að við stöndum í alþjóðasamstarfi þar sem verulega hallar á og við Íslendingar finnum okkur í þeirri stöðu að þurfa að gefa sífellt meira eftir. Það getur ekki verið markmiðið með yfirlýsingu sem þessari.

Ég vil því taka undir það sem þessi ágæti hópur setti fram þarna í Fréttablaðinu í morgun og tel að við eigum að taka þessu sem brýningu til okkar þingmanna um að standa áfram vörð um ýtrustu hagsmuni Íslands í alþjóðasamstarfi og gæta okkar á því að nota það ekki sem sérstaka röksemd, þegar krafa kemur fram um eftirgjöf, að við gætum verið að pirra eða stuða samstarfsaðila okkar. Það er auðvitað þannig að samstarfsaðilar okkar gera bara ráð fyrir því, þannig virkar lífið í samningum milli tveggja aðila, að aðilar samnings gæti hagsmuna sinna. Annað er algerlega fráleitt.

Ég nefni þetta af því að í umræðunni, sem þegar hefur farið fram hér í þingsal, hafa ýmsir stuðningsmenn þessa innleiðingarpakka, þriðja orkupakkans, talað á þeim nótum að EES-samningurinn sé undir. Okkur í Miðflokknum hefur ítrekað verið brigslað um það að vilja grafa undan EES-samningnum og í raun hafa mörgum okkar verði gerðar upp skoðanir í þá veru að endanlega markmiðið með þessari andstöðu okkar við innleiðingu þriðja orkupakkans sé andstaða við og fyrstu skrefin í að grafa undan EES-samningnum. Það er bara ekki þannig.

Ég tók þessa auglýsingu í morgun, þar sem ungt fólk, á þriðja hundrað manns, brýnir okkur til góðra verka — ég gef mér að flestir geri það — á þann veg að við eigum áfram að sinna þessu samstarfi vel en á sama tíma gefa ekki eftir bara til að gefa eftir. Það er þannig í öllum samningum aðila á milli að menn lenda alltaf í einhvers lags sáttaferli. Hvort sem það er samstarf fyrirtækja eða hjónaband — það þekkja það nú aldeilis margir, karlar og konur — þarf sáttaferli reglulega að koma til.

Það hittir þannig á að í EES-samningnum er sú leið skrifuð inn í tengslum við 102. gr. Það er ekki eins og það þurfi að koma á óvart að eitthvert EES-ríkjanna muni á einhverjum tímapunkti kalla eftir því að mál fari aftur inn til sameiginlegu EES-nefndarinnar einmitt í gegnum þennan farveg sem var smíðaður strax í byrjun fyrir hátt í þremur áratugum. Við eigum ekkert að vera lítil í okkur gagnvart þessu og taka þessari brýningu hópsins í Fréttablaðinu í morgun með jákvæðum hætti, að standa í lappirnar og sinna áfram því alþjóðlega samstarfi sem við erum í á þeim forsendum að jafnræðis sé gætt á milli aðila og hagsmunir Íslands ekki fyrir borð bornir.