149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:54]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum aftur. Ég hef það á tilfinningunni að hér sé verið að tjalda til einnar nætur. Ég get ekki varist þeirri hugsun að settur hafi verið einhvers konar þrýstingur á íslensk stjórnvöld að koma þessu í gegn hratt og örugglega, með góðu eða illu.

Og af hverju segi ég það? Jú, vegna þess að fyrir það fyrsta liggur akkúrat ekkert á fyrir okkur Íslendinga að koma þessu í gegn. En það liggur kannski á fyrir aðra, m.a. þau ríki sem eiga meiri hagsmuna að gæta með því að fá aðgang að þeirri orku sem hér er.

Og varðandi endurnýjun á nýtingarsamningum held ég að það sé alveg ljóst að það verða einhvers konar málshöfðanir sem fylgja því ef hún verður ekki gerð samkvæmt reglum Evrópusambandsins. Við Íslendingar getum ekki haldið því fram að við höfum það á okkar forræði algjörlega, að við getum bara haldið þessu áfram í eigu og nýtingu ríkisins.