149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:56]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir ágæta ræðu. Það er tvennt sem mig langar að koma inn á í samhengi við ræðu þingmannsins. Í fyrsta lagi snýr það að því sem hann nefndi varðandi uppbyggingu iðnaðar. Þar var hann að fjalla um Noreg sérstaklega og þau áhrif sem menn sjá fyrir sér, hækkað raforkuverð og aðra reglusetningu hvað raforkusölu varðar, sérstaklega á landsbyggðinni ef ég skildi hv. þingmann rétt. Það vekur mann til umhugsunar um það hvernig þingmaðurinn sjái fyrir sér að þróunin verði hér heima fyrir, annars vegar við innleiðingu og hins vegar að tengingu aflokinni, hvenær sem það verður.

Það er eitt af atriðunum sem efasemdaraðilar um innleiðingu þriðja orkupakkans hafa, verðþróun innan lands, og þykir mörgum æðisúrt að innanlandsmarkaðurinn verði í raun þvingaður inn á eitthvert samevrópskt verð við það að tengjast erlendum mörkuðum.

Hvað sér þingmaðurinn fyrir sér? Nú veit ég að hann er alinn upp í námunda við landbúnaðarstarfsemi, hún umlykur allt hans heimasvæði — hefur hann áhyggjur af uppbyggingu þeirrar starfsemi og áframhaldandi viðgangi hennar?