149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:23]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Klukkan er að verða hálffjögur. Mig langar að spyrja hæstv. forseta hvernig hann sjái fyrir sér áframhaldandi þinghald inn í nóttina. Rætt var á þingflokksformannafundi fyrr í dag að ekkert samkomulag væri um að fundur héldi áfram lengra inn í nóttina en til eitt eða tvö. Nú er klukkan að verða hálffjögur. Við Miðflokksmenn sem hér erum, erum ekkert að biðjast undan því að halda umræðunni áfram, en það væri gott að vita framhaldið upp á skipulag fyrir okkur. Sumir þurfa að mæta á nefndarfund í fyrramálið og þar fram eftir götunum. Það væri áhugavert og mikilvægt fyrir okkur að heyra hvenær hæstv. forseti sér fyrir sér að ljúka umræðunni í nótt.

Ég ítreka að við erum ekki að biðjast undan því að halda áfram, en skipulagsins vegna er sjálfsögð kurteisi að upplýsa okkur um það.