149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að vekja athygli á þessu. Það virðist sem fulltrúar allra stjórnarflokka hafi tekið einhvers konar Reykás á þetta mál og það er út af fyrir sig athyglisvert. Hér var í salnum rétt áðan hæstv. forseti Alþingis og þáverandi hv. þingmaður og það hefði verið ánægjulegt og upplýsandi að fá einhverjar útskýringar á þessum sinnaskiptum, ástæðu fyrir þeim eða eitthvað slíkt. En auðvitað er þetta fyrst og fremst fróðlegt, bæði fyrir okkur sem hér stöndum og erum enn þá að ræða þetta mál og munum gera það eins lengi eins og þurfa þykir, en líka fyrir þá sem eru hugsanlega að fylgjast með umræðunni eða eiga að miðla fréttum af því sem hér gerist á þinginu. Fyrir þá held ég að þetta hljóti að vera áhugaverðir punktar inn í þessa umræðu.

Ég verð að taka undir með hv. þingmanni að manni er ekki ljóst hvað hefur orðið til þess að menn kúvenda svo gjörsamlega í afstöðu sinni til þessa máls, sem er vissulega, eins og fram kom í þessu tilvitnaða nefndaráliti, mjög stórt og merkilegt, eða hvaða öfl eða hverjir hafa skipt um skoðun fyrir viðkomandi.

Mér þætti vænt um að fá álit hv. þingmanns á því hvað hann telji að hafi orðið þess valdandi að þessi 180° snúningur eða svo hafi orðið í þessu tilfelli.