149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:11]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Svo vill til að þeim sem hér stendur hefur orðið sérlega hált á svellinu við að ræða raforkulínur á Íslandi einmitt í þessari umræðu. Það breytir ekki því að hringtengingin á Íslandi er, eins og ég lýsti hér fyrr í kvöld, eins og léleg jólasería. Og þessi ummæli, léleg jólasería, heyrði ég frá starfsmanni sem þekkir þetta flutningsnet út og inn.

Það er alveg laukrétt hjá hv. þingmanni að flutningsnetið á vesturhelmingi landsins er úr sér gengið og mjög lasburða og þolir þess vegna ekki þann aukna flutning sem fyrirhugaðar virkjanir í formi vinds og smávirkjana bera með sér. En það vill þannig til að einn af þeim mörgu sem hefur verið að fylgjast með þessari umræðu í kvöld og nótt og í morgun sendi fyrirspurn inn í hóp okkar ekki alls fyrir löngu. Hann spurði hvort sá sem hér stendur teldi að þeir sem væru kaupendur raforkunnar og/eða framleiðendur hennar — þá er ég annars vegar að tala um kaupendur sem eiga ekki heima á Íslandi, hins vegar framleiðendurna sjálfa — yrðu á einhverjum tímapunkti og á einhvern hátt gerðir samábyrgir í kostnaði við að byggja þessar línur upp.

Nú hef ég það svar ekki á reiðum höndum. En í sjálfu sér finnst manni ekki óeðlilegt að það yrði gert með einhverjum hætti. Ég sé ekki að núverandi kerfisáætlun, sem var samþykkt 2015 eins og frægt er orðið, umfaðmi þau áform sem nú eru uppi. Ég sé það ekki alveg.