149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:58]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott andsvar. Hann kemur einmitt inn á nokkuð sem skiptir verulegu máli í þessari umræðu sem er: Hver er hvatinn? Hvers vegna vilja stjórnvöld ekki reyna að fá þessa varanlegu undanþágu? Er það vegna þess að áætlunin er kannski sú að við komum til með að undirgangast þetta markaðssvæði og taka þátt í því? Er það raunin að menn hlusta á af mikilli athygli og fara jafnvel eftir óskum fyrirtækja á borð við Landsvirkjun, sem hefur lýst því yfir að það sé mikilvægt að við undirgöngumst þessa tilskipun og hér verði lagður sæstrengur?

Ég minni á að forstjóri Landsvirkjunar hefur sagt að það sé ekki spurning um hvort sæstrengur komi heldur hvenær hann muni koma og það verði styttra í það en margur heldur. Þetta hefur forstjóri Landsvirkjunar sagt, sem sýnir að þarna eru öfl á bak við sem telja það mjög mikilvægt að við undirgöngumst þessa tilskipun. Við undirbúum jarðveginn til að geta selt þessa orku úr landi og inn á sameiginlegan markað Evrópusambandsins.

Við sjáum það líka að hér er verið að kaupa upp landsvæði. Það eru áform um vindmyllugarða, erlendir fjárfestar að huga að þeim og fjárfestar að kaupa virkjunarkosti o.s.frv., sem sýnir að þessi undirbúningur er í gangi. Ef við myndum fá varanlega undanþágu þá er kannski búið að kippa stoðunum undan þessum aðilum. Þess vegna hugsar maður með sér: (Forseti hringir.) Eru það þessir hagsmunir á bak við sem keyra þetta mál áfram? Því miður hvarflar að manni að svo sé.