149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða mikilvægi nýsköpunar, rannsókna og þróunar. Við segjum gjarnan að forsenda framtíðarhagvaxtar byggi á nýsköpun í útflutningsháðu, auðlindadrifnu hagkerfi þar sem verðmætasköpun hefur að miklu leyti byggst á nýtingu auðlinda náttúrunnar og stór hluti útflutningstekna kemur frá atvinnugreinum eins og sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Náttúruauðlindir eru takmarkaðar og því er okkur nauðsynlegt að byggja undir frekari verðmætasköpun, bæta framleiðni, alþjóðlega samkeppnishæfni og getu atvinnulífsins til gjaldeyrisöflunar og horfa til nýsköpunar og ekki síst rannsókna og þróunar á sviði þekkingar.

Hæstv. ríkisstjórn er mjög meðvituð um þessa stöðu og staðreynd og framtíðarsýn eins og stjórnarsáttmálinn ber glöggt vitni um, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóða, ekki síst í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem vænta má í atvinnu- og menntamálum vegna örra tæknibreytinga.“

Í þeirri ríkisfjármálaáætlun sem er til umfjöllunar í hv. fjárlaganefnd fylgir hæstv. ríkisstjórn þessu vel eftir með aðgerðum, m.a. í samhengi við áætlanir Vísinda- og tækniráðs þar sem unnið er að því að einfalda starfsumhverfi frumkvöðla- og sprotafyrirtækja, eflingu stoðkerfis, endurgreiðslu kostnaðar vegna rannsókna og þróunar, stofnun fjárfestingarsjóðs sprota- og nýsköpunarfyrirtækja og með auknu fjármagni til þessara verkefna.

Þannig er uppsöfnuð aukning til nýsköpunar, málefnasviði 7, á áætlunartímanum 2020–2024, 4.674 millj. kr., eða um 31% aukning á föstu verðlagi 2019. Mér er til efs að nokkur önnur ríkisstjórn hafi fylgt þessari sýn jafn vel eftir, sem flestir hafa þó verið sammála um í gegnum tíðina að sé alger lykill að aukinni framleiðni, atvinnu og framtíðarverðmætasköpun. Öflugt, skilvirkt stoðkerfi nýsköpunar á sem flestum sviðum atvinnulífsins er kjarni stefnumótunarsýnar til 2030 og er vissulega, virðulegi forseti, ein af meginforsendum framtíðarlífskjara.