149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Halla Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er frekar skuggalegt bandalagið sem hægri öfgaflokkar hafa myndað í von um að ná undirtökum á Evrópuþinginu í kosningunum sem fara fram nú á fimmtudag. Þetta bandalag er ekki bundið við Evrópu. Yanis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands, hefur vísað til hreyfingarinnar, með leyfi forseta, sem „the Nationalist International“, einhvers konar alþjóðlegs bandalags þjóðernissinnaðra. Sumpart má segja að þessir öfgasinnuðu stjórnmálamenn og flokkar þeirra séu með ákveðna greiningu á vandamálinu. Þeir þykjast ætla að græða sviðna jörð alþjóðavæðingarinnar. En mögulegar lausnir sem þeir kynna til sögunnar eru ógeðfelldar. Minnihlutahópar, konur og innflytjendur eru gerð að blórabögglum. Vegið er að borgaralegum réttindum og alþjóðlegri mannréttindavernd og talað gegn menntun, upplýsingu og frjálsri fjölmiðlun. Ábyrgð okkar á loftslagsbreytingum er drepið á dreif eða beinlínis afneitað.

Stærstu vandamál samtímans krefjast alþjóðlegrar samvinnu. Loftslagsvandinn er nærtækt dæmi og einnig má nefna baráttuna við ójöfnuð. Við búum við þann veruleika að 1% heimsins hefur yfirráð yfir helmingi efnislegra gæða hans. Ef ekkert verður að gert mun það hlutfall hækka upp í 2/3 hluta á næsta áratug. Hvenær er nóg nóg? Má 1% eiga 70%, 80%, 90%, 100% eða ætti 1% kannski að eiga 1%. Í of ríkum mæli hefur frelsi fjármagnsins verið hafið yfir allt annað heimsins frelsi. Þess vegna má vara við því að smætta mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu niður í einfeldningslegar umræður um viðskiptafrelsi.

Virðulegur forseti. Þau gildi mannréttinda og jafnréttis sem hér á Alþingi ríkir og talsvert mikill einhugur er um eiga ríkt erindi í heimsumræðuna. Við skulum standa vörð um þau gildi og gera okkar til að efla alþjóðlega samvinnu í þágu mannréttinda og sjálfbærrar þróunar. Oft var þörf en nú er nauðsyn.