149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Það er ágætt að skýrt var skilið á milli mín og hv. þingmanns sem talaði á undan mér því að ég ætla ekki að halda sjöttu, sjöundu, áttundu, níundu ræðuna mína um þriðja orkupakkann eða hvað það nú var. Ég ætla hins vegar að tala um mun stærri mál á þeim stutta tíma sem ég hef.

Í morgun urðu þau ánægjulegu tíðindi að þrír hæstv. ráðherrar, forsætisráðherra, dómsmálaráðherra og félagsmála- og barnamálaráðherra, kynntu sameiginlegar aðgerðir stjórnvalda gegn mansali og félagslegum undirboðum. Hér er á ferðinni mál sem við ættum að gefa mikinn gaum og tíma í þessum sal því að gríðarlega mikilvægt er að efla lagaumgjörð og eftirlitsheimildir til að tryggja viðeigandi aðstoð og vernd fyrir fórnarlömb vinnumansals og nauðungarvinnu.

Forseti. Ég fagna því hve alvarlega hæstv. ríkisstjórn tekur þau mál. Þetta hefur á verið á borði margra samtaka aðila vinnumarkaðarins, sérstaklega verkalýðsfélaga, að efla verði aðgerðir í þá veru. Þess vegna er mjög ánægjulegt að þetta skref skuli vera stigið núna. Í undirbúningsvinnu fyrir það hefur verið vandað mjög vel til verka, m.a. fengin utanaðkomandi ráðgjöf frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu þar sem vel er þekkt til slíkra mála og til hvaða aðgerða þarf að grípa til að raunverulega sé hægt að koma í veg fyrir mansal og félagsleg undirboð. Ég hlakka til að sjá hverju sú vinna skilar og til að takast á við þær nauðsynlegu lagabreytingar sem hún mun kalla á.