149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Í síðustu viku komu hingað til lands um 50 flóttamenn og var þeim búinn dvalarstaður á Blönduósi og á Hvammstanga þar sem heimamenn í samstarfi við ríkið undirbjuggu komu þeirra og tóku á móti þeim. Hér er um að ræða flóttafólk frá Sýrlandi sem hefur dvalið í Líbanon undanfarin ár, níu fjölskyldur og um 30 börn. Ég vil hvetja önnur sveitarfélög til að gera slíkt hið sama. Við eigum að taka þessu fólki fagnandi og nýta okkur komu þeirra og dvöl til að auðga eigin menningu og samfélag, enda er það markmið flestra flóttamanna að snúa aftur til síns heima.

Það er í mörg horn að líta hjá litlu samfélagi og mikilvægt að vanda sig, svo sem hvernig íslenskukennslu er háttað. Ef okkur Íslendingum auðnast að vökva framandi menningu og blanda við okkar eigin mun okkur farnast vel. Við búum í samfélagi þjóða, tökum þátt í vaxandi heimi þar sem fjölmenning ryður sér til rúms. Okkur birtust sömuleiðis fyrir skemmstu fréttir um það að aldrei í sögunni hafa fleiri einstaklingar verið á hrakhólum innan eigin landa vegna átaka, ofbeldis eða náttúruhamfara. Samkvæmt nýrri skýrslu voru um 42 milljónir manna á vergangi í eigin landi um síðustu áramót. Útgefendur skýrslunnar eru alþjóðleg samtök sem sérhæfa sig í málefnum fólks á hrakningi innan eigin lands og norska flóttamannaráðið. Fjallað er um málið á vefsíðunni Heimsljós, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.

Spyrjum okkur sjálf eins og Kant gerði: Viljum við að þær lífsreglur sem við setjum okkur verði jafnframt að hinu almenna lögmáli, ekki aðeins fyrir okkar kynslóð heldur líka þá næstu? Ætli stjórnmálamaður dagsins í dag hafi kjark til þess sem þarf? Ég vil nota þetta tækifæri til að bjóða þetta fólk velkomið til Íslands. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)