149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:27]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Aftur þakka ég hv. þingmanni fyrir að koma hér og halda þessu fram. Það segir m.a. í þeim orðum sem Eyjólfur Ármannsson lögmaður hefur látið frá sér fara, með leyfi forseta:

„Alþingi ber að hafna þingsályktunartillögunni og tilkynna það sameiginlegu EES-nefndinni. Slík málsmeðferð ógnar ekki aðild að EES-samningnum enda í fullu samræmi við ákvæði hans. Ótti við slíkt er hættulegur samstarfinu. Stór hluti þriðja orkupakkans hefur ekki gildi fyrir Ísland líkt og orkumálastjóri ESB og utanríkisráðherra hafa lýst yfir og mikilvægt er að það komi fram í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Nefndin færi varla að komast að öðrum skilningi enda sitja þar undirmenn ráðherrans og orkumálastjórans; sendiherrar Íslands, Noregs og Liechtenstein EFTA-megin og fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB. Þetta yrði í fyrsta sinn í 25 ára sögu EES-samningsins sem hinn stjórnskipulegi fyrirvari væri nýttur og máli vísað aftur til nefndarinnar, enda í fyrsta sinn sem ætlunin er að færa helstu náttúruauðlind Íslands undir erlent eftirlit og regluverk innri raforkumarkaðar ESB sem landið er ekki hluti af.“

Ef ég man rétt, og hv. þingmaður leiðréttir mig þá, varðandi það sem hann tilgreindi úr aprílversjón þeirra félaga, Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts, var næsta setning á eftir því sem hann las upp: „Þó er hún ekki gallalaus“, þ.e. þessi aðferð sem hann tilgreindi.

Þetta nægir mér, hv. þingmaður, í þeirri vissu (Forseti hringir.) minni að það þurfi að gaumgæfa þetta mál betur og vera algjörlega viss um (Forseti hringir.) að það sé ekki í blóra við stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.