149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera aðra tilraun til að reyna að varpa ljósi á það hvernig þessir fyrirvarar virka. Þeir virka ekki þannig að EES þurfi eitthvað að trúa því að þessir fyrirvarar séu til. Þetta virkar þannig að Alþingi samþykkir, vænti ég, þingsályktunartillögu sem felur ráðherra að innleiða þennan pakka, þessar gerðir, frá Evrópusambandinu. Sú þingsályktunartillaga verður að þingsályktun og það er sú þingsályktun sem hefur gildið.

Samkvæmt greinargerð þingsályktunartillögunnar koma þar fram fyrirvararnir og þeir hafa meira að segja komið fram í drögum að reglugerð sem voru kynnt atvinnuveganefnd síðasta föstudag. Þeir eru alveg skýrir. Fyrirvararnir í þeirri þingsályktun og þeirri reglugerð hafa sama vægi og þingsályktunin sjálf. Það er löggjafinn hérna sem ákveður hvort þessir fyrirvarar séu fyrir hendi eða ekki, ekki EES. Þeir snúast um að viðhalda stjórnarskrárlegu samhæfi. Þeir snúast ekki um það hvað EES gerir í kjölfarið. Hvað gerir EES í kjölfarið? Hvað með ef við spyrjum EES? Bíddu, við gerðum það. (Forseti hringir.) Og EES sagði að þetta hefði enga þýðingu, sem er augljóst, fyrr en sæstrengur er kominn á Íslandi. Það er ekkert að kæra. (Forseti hringir.) Það er engin leið fyrir EES að storka þessum fyrirvörum. Þeir eru fyrir okkar eigið dómskerfi, okkar eigið lagakerfi. (Forseti hringir.) Þetta var ekki spurning. Ég var bara að leiðrétta hv. þingmann.

(Forseti (JÞÓ): Forseti gleymdi að nefna það að þegar fjórir hv. þingmenn óska eftir að veita andsvör þá styttist tíminn í eina mínútu í bæði fyrra og seinna andsvari.)