149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég viðurkenni fúslega að mér er heitt í hamsi. En það er ekkert ómálefnalegt við að benda á það þegar menn fara með ósannindi, bersýnileg ósannindi, sem hægt væri að staðfesta með því að lesa gögn málsins. Ekki trúa mér. Það þarf ekkert að trúa mér. Lesið bara gögnin og hlustið á sjálfa ykkur. — Virðulegur forseti, ég biðst afsökunar á að ávarpa þingmenn beint.

Hvað varðar efni málsins þá er ég ekki hér að kvarta undan málinu sjálfu og ég er kominn á mælendaskrá, meðan ég man, og hef tekið þátt í umræðum og hef reynt að vera málefnalegur og halda mig við efnið.

Ég fer upp undir fundarstjórnarliðnum vegna þess að mér blöskrar þessi óheiðarleiki. Mér finnst alveg ótrúlegt ef kjósendur Miðflokksins láta bjóða sér að hv. þingmenn þeirra beiti ósannindum og láti menn úti í bæ ekki njóta sannmælis til að koma málstað sínum á framfæri. Það er algerlega til skammar. Það kemur efnisatriði málsins nákvæmlega ekki neitt við. Þess vegna kem ég upp undir þessum lið, fundarstjórn forseta.

Já, mér verður heitt í hamsi við þetta. Það er allt í lagi að ræða þetta mál og ég er búinn að segja það hér og segi það aftur: Mér finnst fínt að það sé rætt fjári mikið, geri engar athugasemdir við það. Mér finnst það gott. Þetta er umdeilt mál og þjóðin hefur ekki fullan skilning á því enn vegna þess að umræðan hefur ekki verið næg. (Forseti hringir.) Ég ber virðingu fyrir því og þess vegna tek ég þátt í þessari umræðu. Það er ekki við mig að sakast í því.

En ég krefst þess að hv. þingmenn komi ekki hingað alveg blákalt og segi kjósendum sínum ósatt. Það er ekki málstað þeirra til framdráttar, ekki þeim sjálfum og ekki þinginu.