149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:08]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Þetta er staðan að fjármunirnir sem eru í Landsvirkjun, og við höfum fjárfest í, eru nú að skila arði, það nemur um 1,5 milljörðum kr. á ári sem Landsvirkjun hefur verið að greiða ríkissjóði í arð. Tilvitnun í forstjóra fyrirtækisins sýnir að hann telur að fyrirtækið gæti hæglega greitt 110 milljarða kr. til ríkissjóðs í arð á árinu 2020–2026, þ.e. við erum komin á þennan tímapunkt að þessi fjárfesting okkar til langrar framtíðar er farin að skila okkur þessum arði.

Það er nöturlegt að hugsa til þess að við séum í þeirri stöðu sem hv. þingmaður lýsir, að hér séu hundruð barna sem bíða eftir algjörri grunnþjónustu, að við teljum, með það heilbrigðiskerfi sem við erum með hér. Við erum með unglinga sem hafa verið í sjálfsskaðahættu og þurfa að bíða í sex mánuði eftir sálfræðimeðferð, sex mánuði, verandi í þeim hugleiðingum að skaða sjálfa sig eða taka jafnvel eigið líf. Að hvaða brunni ber þetta? Jú, það vantar peninga í ríkissjóð og það vantar alltaf peninga.

En hér erum við að horfa á það að það er ekki einungis þetta. Það er líka samgönguáætlun og það er heilbrigðisstefnan til langs tíma sem raunverulega bara kemst ekki á dagskrá vegna þess að okkur liggur svo á að losa okkur við Landsvirkjun, við fyrirtækið okkar sem er að skila okkur arði.

Væri ekki nær, herra forseti, að við tækjum þetta mál og frestuðum því, ellegar að ríkisstjórnin tæki það upp á sína arma aftur og myndi vísa því til sameiginlegu EES-nefndarinnar? Eða hver er skoðun hv. þingmanns á því?