149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:15]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina. Nei, það hefur enginn sparað sér þar heldur hefur það verið þveröfugt. Það er búið að búta orkusöluna og orkuflutninginn niður í alls konar parta en það sem hefur valdið langmestu tjóni og fjármagnskostnaði hjá þeim sem síst skyldi er hin ótrúlega tilskipun, sem við tókum alveg þegjandi og hljóðalaust, um skipti á ljósaperum. Það er rosalega kostnaðarsamt og eiginlega út úr korti vegna þess að í sjálfu sér, miðað við það góða raforkuverð sem við höfum þó enn, þótt það hafi hækkað, hefði það kostað mjög lítið fyrir okkur að halda okkar glóperu. Nei, við þurftum að kaupa rándýrar perur sem okkur er sagt að eigi að endast alveg ótrúlega lengi. Ég hef ekki rekist á þá peru sem endist. Engin pera sem ég hef keypt svona rándýra hefur enst lengur en gamla glóperan. Hvað segir það okkur? Þetta er auðvitað tilskipun frá Evrópusambandinu sem við hefðum átt að mótmæla. Þetta sýnir það sem ég var að tala um, að þessi ótrúlegi fjöldi mála frá EES sem við fáum á færibandi og þingið, við, löggjafarvaldið, hefur ekkert um að segja: Við eigum bara að stimpla það. Hvers vegna í ósköpunum erum við ekki búin að breyta þessu kerfi? Á hvaða öld erum við stödd? Ef þetta eiga að vera samskipti og samningar hljótum við í þinginu eða að lágmarki utanríkismálanefnd að fá málin áður en endanlega er gengið frá þeim og á að fá tækifæri til að koma sínu að. Helst myndi ég vilja að það færi þannig að nefndin fengi það, síðan færi það hingað inn í þing og við tækjum málefnalega afstöðu til þess og sendum það út til umsagnar. Síðan færum við að setjast niður og semja.