149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:23]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Hæstv. forseti. Ég neyðist til að halda eina leiðinlega ræðu. Ég hef náttúrlega verið afspyrnuskemmtilegur hingað til og þarf því miður að gera að umræðuefni hér samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það er búið að ræða þann samning mikið með tilliti til þess efnis sem í honum felst og ég get ekki varist því að ég hef á tilfinningunni að ekki sé endilega fullur skilningur á efni eða innihaldi samningsins, a.m.k. ekki hjá öllum. Um mál sem þetta er einkum fjallað í 7., 4 gr., 97. gr., 102. gr., 103. gr. 104. gr., meðal reyndar annarra, en ég sé mig knúinn til að lesa hér upp nokkrar greinar sem skipta miklu máli til að við áttum okkur á því hvernig er tekið á málum, þ.e. innleiðingarnar. Það er ágætt að hæstv. forseti kom inn á það að fara inn á þá ferla. Hvað þýðir það þegar við innleiðum gerðir?

Í 7. gr. segir:

„Gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samning þennan, eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, binda samningsaðila og eru þær eða verða teknar upp í landsrétt sem hér segir:

a. gerð sem samsvarar reglugerð EBE skal sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila;

b. gerð sem samsvarar tilskipun EBE skal veita yfirvöldum samningsaðila val um form og aðferð við framkvæmdina.“

Í 97. gr. segir um tilhögun ákvarðanatöku:

„Með fyrirvara um meginregluna um jafnræði, og eftir að öðrum samningsaðilum hafa verið veittar upplýsingar þar um, hefur samningur þessi ekki áhrif á rétt einstakra samningsaðila til að breyta innlendri löggjöf á þeim sviðum sem samningurinn tekur til:

ef sameiginlega EES-nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að löggjöf, eins og henni hefur verið breytt, hafi ekki áhrif til hins verra á framkvæmd samningsins“ — þ.e. að ef við setjum í lög, í landsrétt eitthvað eins og t.d. fyrirvara sem hefur áhrif á framkvæmd samningsins, þ.e. eitthvað eins og um grunnvirki yfir landamæri hefur það áhrif; „ef sameiginlega EES-nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að löggjöf, eins og henni hefur verið breytt, hafi ekki áhrif til hins verra á framkvæmd samningsins; eða

ef skilyrðum 98. gr. hefur verið fullnægt.“

Í 98. gr. segir:

„Breyta má viðaukum samningsins, svo og bókunum 1–7, 9–11, 19–27, 30–32, 37, 39, 41 og 47, eftir því sem við á, með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í samræmi við 93. (2. mgr.), 99., 100., 102. og 103. gr.“

Það eru greinarnar sem koma hér á eftir. Þarna er farið mjög skilmerkilega yfir þetta, hvernig það virkar, sá samningur sem okkur er svo annt um og er verið að tala um að við séum að reyna að grafa undan með því að halda ræður um hér.

Í 102. gr. segir, með leyfi forseta:

„1. Til að tryggja réttaröryggi og einsleitni EES skal sameiginlega EES-nefndin taka ákvörðun um breytingu á viðauka við samning þennan eins fljótt og unnt er, eftir að bandalagið hefur samþykkt nýja samsvarandi löggjöf bandalagsins, með það að markmiði að unnt sé að beita samtímis þeirri löggjöf og breytingunum á viðaukunum við samninginn. Bandalagið skal í þessum tilgangi tilkynna öðrum samningsaðilum í sameiginlegu EES-nefndinni eins fljótt og unnt er þegar það samþykkir réttarheimild um málefni sem fjallað er um í samningi þessum.

2. Sameiginlega EES-nefndin skal meta á hvaða hluta viðauka við samning þennan þessi nýja löggjöf hefur bein áhrif.

3. Samningsaðilar skulu gera sitt ýtrasta til að komast að samkomulagi um málefni sem samningur þessi tekur til. Sameiginlega EES-nefndin skal einkum gera sitt ýtrasta til að finna lausn sem aðilar geta sætt sig við þegar upp koma alvarleg vandamál á sviðum sem falla undir valdsvið löggjafans í EFTA-ríkjunum“ — sem væri akkúrat þessi gerð af því að hún fellur undir valdsvið EFTA-dómstólsins.

4. „Ef ekki er unnt að komast að samkomulagi um breytingar á viðauka við samning þennan, þrátt fyrir beitingu undanfarandi málsgreinar, skal sameiginlega EES-nefndin kanna alla frekari möguleika á því að tryggja áframhaldandi góða framkvæmd samningsins“ — alla möguleika, þannig að það sé á hreinu — „og taka nauðsynlegar ákvarðanir þar að lútandi, meðal annars að viðurkenna að löggjöf sé sambærileg. Taka verður slíka ákvörðun eigi síðar en við lok sex mánaða tímabils …“

Ég ætla aðeins að fara hratt yfir sögu þó að það sé mikilvægt og ég kannski kem að þessu aftur í seinni ræðu hans vegna þess að þetta er mikilvægt mál.

(Forseti (JÞÓ): Þingmaður hefur heimild til að reyna að klára þetta þannig að hann haldi þræði.)

Takk fyrir. Þá byrja ég aftur hér:

„Taka verður slíka ákvörðun eigi síðar en við lok sex mánaða tímabils, frá því að málinu er vísað til sameiginlegu EES-nefndarinnar, eða á gildistökudegi samsvarandi löggjafar bandalagsins ef sá dagur er síðar.

5. Hafi sameiginlega EES-nefndin ekki tekið ákvörðun um breytingu á viðauka við þennan samning við lok frests sem settur er í 4. mgr. skal litið svo á að framkvæmd viðkomandi hluta viðaukans, sem ákveðinn er samkvæmt 2. mgr., sé frestað til bráðabirgða nema sameiginlega EES-nefndin ákveði annað. Frestun af þessu tagi gengur í gildi sex mánuðum eftir lok tímabilsins sem um getur í 4. mgr., þó ekki fyrir þann dag er samsvarandi gerð EB kemur til framkvæmda í bandalaginu. Sameiginlega EES-nefndin skal áfram leitast við að koma á samkomulagi um lausn sem aðilar geta sætt sig við …“ — Það er lítið þarna að finna um að EES-nefndin eða Evrópusambandið skuli koma á glundroða eða setja allt í háaloft. Þetta miðast allt að því að ná sáttum, að sætta sjónarmið, að koma mönnum á eitthvert sameiginlegt ról um hvað skuli gera og hvað skuli ekki gera svo að draga megi frestunina til baka við fyrsta tækifæri. — „… svo að draga megi frestunina til baka við fyrsta tækifæri.

6. Ræða skal um raunhæfar afleiðingar þeirrar frestunar sem um getur í 5. mgr. í sameiginlegu EES-nefndinni. Réttindi og skyldur sem einstaklingar og aðilar í atvinnurekstri hafa þegar áunnið sér með samningi þessum skulu haldast. Samningsaðilar skulu, eftir því sem við á, ákveða hvaða breytingar þurfi að gera vegna frestunarinnar.“

Í 103. gr. sem er mikilvæg ásamt 104.:

„1. Ef ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar getur einungis verið bindandi fyrir samningsaðila eftir að hann hefur uppfyllt stjórnskipuleg skilyrði skal ákvörðunin ganga í gildi á þeim degi sem getið er í henni “ — þarna er ákvæði um að það skuli vera dagur, skuli vera dagsetning þá á þeim lagalega fyrirvara sem náttúrlega mun ekki halda en það þarf að gera þetta rétt — „ef sérstakur dagur er tiltekinn, að því tilskildu að hlutaðeigandi samningsaðili hafi tilkynnt hinum samningsaðilunum fyrir þann dag að stjórnskipuleg skilyrði hafi verið uppfyllt.

Hafi tilkynningin ekki farið fram fyrir umræddan dag gengur ákvörðunin í gildi fyrsta dag annars mánaðar eftir síðustu tilkynningu.

2. Hafi tilkynningin ekki átt sér stað sex mánuðum eftir að sameiginlega EES-nefndin tók ákvörðun sína skal ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar gilda til bráðabirgða meðan stjórnskipulegum skilyrðum hefur ekki verið fullnægt, nema samningsaðili tilkynni að slík gildistaka til bráðabirgða geti ekki átt sér stað.“ — Það myndi eiga við í okkar tilviki. — „Í síðara tilvikinu, eða tilkynni samningsaðili að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar hafi ekki hlotið samþykki“ — eins og gæti orðið raunin hér ef við myndum ná að snúa mönnum — „skal frestunin, sem kveðið er á um í 5. mgr. 102. gr., ganga í gildi einum mánuði eftir að tilkynningin fer fram en þó ekki fyrir þann dag er samsvarandi gerð EB kemur til framkvæmda í bandalaginu.“

Í 104. gr. segir:

„Ákvarðanir teknar af sameiginlegu EES-nefndinni í tilvikum sem kveðið er á um í samningi þessum skulu vera bindandi fyrir samningsaðila frá og með gildistökudegi þeirra, nema kveðið sé á um annað í þeim, og skulu þeir gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja framkvæmd þeirra og beitingu.“

(Forseti (JÞÓ): Nú vill forseti biðja þingmanninn að halda áfram í annarri ræðu til þess að klára þetta þar sem hann er kominn frekar langt fram yfir, sennilega eru meginatriðin komin fram.)

Ég þakka kærlega fyrir, ég var akkúrat að ljúka því sem ég ætlaði að fara yfir. Hér er sem sagt komin uppskriftin að þeirri einföldu lagalegu leið sem búið er að leggja til, sem er leið sem mun halda. Ég þakka hæstv. forseta.