149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:35]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er nú það. Það er þessi skilningur sem ég gerði að inntaki ræðu minnar hér, þ.e. um að við séum með fyrirvara og þeir séu í gildi. Ég er ansi hræddur um að Carl Baudenbacher sé trauðla sammála því og hann myndi án efa byggja þá álitsgerð — ég ætla kannski ekki að gera manninum upp skoðanir, en ég geri ráð fyrir því að hann sem fyrrverandi dómari við EFTA-dómstólinn myndi dæma eftir Evrópulöggjöfinni. Ég kom einmitt inn á það í yfirferð minni yfir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið að þessar gerðir sem innleiddar eru falla undir EFTA löggjöfina sem gildir á þessu svæði og innan þeirra ríkja sem hafa tekið upp gerðir samkvæmt þessum samningi.

Ég tel því að það sé alveg einsýnt að það sem við fórum að ræða hér í nótt og þegar við fórum að velta fyrir okkur ástæðum þess að menn virðast vera svo áfram um að gefa út yfirlýsingar um að það sé allt í fínu lagi að hafa þessa fyrirvara, það sé gott og munu ekki gera athugasemd við það — auðvitað gera þeir ekki athugasemd við það vegna þess að þeir hafa akkúrat enga þýðingu. Akkúrat enga þýðingu. Það er lykilatriðið í þessu. Það er ekkert mál fyrir menn sem eru pólitískt bundnir en binda ekki lögaðila eða einstaklinga eða þá sem kynnu að hafa lögvarða hagsmuni innan þessa samnings, vegna þess að þessir heimatilbúnu fyrirvarar hafa bara einfaldlega ekki nokkra einustu þýðingu aðra en þá að friðþægja þá sem eru fylgjandi innleiðingu orkupakkans með fyrirvara í þingsályktunartillögunni.