149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:45]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni kærlega fyrir andsvarið. Já, þetta blasir þannig við mér. Mér þætti afar vænt um ef einhver fylgismanna orkupakkans gæti séð af tíma sínum — þeir eiga nú alltént að vera í vinnu — til að koma hingað í þingsal og andmæla þessu með gildum rökum frá fræðimanni sem hrekur þá þessar greinar samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem eru lög nr. 103/1993.

Þarna eru gerðir fyrirvarar sem því miður eiga bara ekki heima í þessum samningi. Það er bara ekki gert ráð fyrir þeim. Það er ástæða þess að enginn hefur getað komið í allri þessari umræðu í ræðustól og bent á fyrirvara sem settir hafi verið og hafi haldið. Vissulega hafa verið settir fyrirvarar en menn hafa verið gerðir afturreka með þá, eins og við þekkjum mætavel, við Íslendingar.

Það er nú svo að flest málin sem við fáum á okkur frá ESA eru vegna rangrar innleiðingar. En ef við innleiðum, eins og sagt er í þingsályktunartillögunni, reglugerðirnar í íslenskan rétt á hefðbundinn hátt erum við ekki að brjóta innleiðinguna. Ef við ætlum hins vegar að fara að beita fyrir okkur þessum fyrirvörum verðum við gerðir afturreka með þá. Það er alveg ljóst.

Ég held að það sé kannski meginatriðið í þessu. Ef við skoðum þessar greinar sem eiga við um þessa málsmeðferð komumst við að þeirri niðurstöðu að þessir fyrirvarar eru bara gerðir til þess að friða bakland flokkanna.