149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:59]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú hef ég svo sem ekki látið framkvæma neina greiningu á þessu og það er nú kannski það sem við höfum verið að kalla eftir, við þingmenn Miðflokksins sem höfum staðið í þessari umræðu, að ríkisstjórnarflokkarnir, eða þeir ráðherrar sem fyrir þessum málum fara, láti einmitt vinna frekari úttektir á þeim vafamálum sem uppi eru.

Út frá þeirri þekkingu sem ég hef — og held ég því ekki fram að ég sé sterkastur á svellinu í þessum efnum, en þegar höfðað er samningsbrotamál gegn þessum sjö stóru þjóðum fyrir að hafa ekki farið í opið útboð á nýtingarrétti vatnsfalla myndi ég halda að það þýddi í íslensku samhengi að opið útboð ætti við um alla aðila, opinbera og einkaaðila, á öllu EES-svæðinu. Ég sé ekki í fljótu bragði fyrir mér hvernig menn ætli að þrengja það mikið miðað við það regluverk sem fyrir liggur. Ég held því að við séum búin að opna að einhverju marki í þessum efnum. En við eigum að fara í þá vegferð, ef svo má segja, að tryggja að við opnum ekki frekar fyrir þetta en orðið er.

En ég er hræddur um að svona hlutir verði alltaf túlkaðir á víðasta mögulegan máta þegar kemur að orkumarkaðsmálum Íslands að aflokinni innleiðingu þriðja orkupakkans.