149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Við vitum að það hefur afleiðingar að markaðsvæða orkuna og orkufyrirtækin. Þessi tilskipun gengur út á það að við verðum þátttakendur að þessu sameiginlega markaðssvæði. Þegar sæstrengur kemur þá erum við komin inn á þetta sameiginlega markaðssvæði. Spurningin er þessi: Á þetta við um íslenskar aðstæður?

Það er fróðlegt að rifja upp ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Þegar orkupakki eitt var innleiddur á sínum tíma skilaði hann séráliti í utanríkismálanefnd. Í því áliti segir, með leyfi forseta:

„Raforkutilskipunin á engan veginn við um íslenskar aðstæður þar sem hér er einangraður orkumarkaður, landfræðilegar aðstæður gerólíkar því sem gerist á meginlandi Evrópu auk þess sem margir fleiri þættir svo sem af félagslegum, sögulegum og umhverfislegum toga gera það að verkum að Íslendingar þurfa að hafa fullt sjálfstæði til að velja sínar eigin leiðir í þessum efnum. Markaðs- og einkavæðing raforkugeirans hefur gefist vægast sagt misjafnlega víða erlendis þar sem slíkt hefur verið reynt.“

Þetta segir í séráliti hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar orkupakki eitt var innleiddur. Maður veltir því fyrir sér, og gott að fá álit hv. þingmanns á því, hvað valdi þessum sinnaskiptum Vinstri grænna í þessu máli? Það er algjör viðsnúningur. Vinstri grænir greiddu atkvæði á móti orkupakka eitt og tvö og voru á móti því að markaðsvæða raforkuna. Síðan gera þeir allt til að koma þessu í kring og að keyra þetta mál í gegn, (Forseti hringir.) að við verðum þátttakendur á þessu sameiginlega markaðssvæði. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður hefur mikla reynslu í stjórnmálum og væri fróðlegt að fá hugleiðingar hans um það hvað valdi þessum miklu sinnaskiptum hjá þessum flokki.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir enn á tímamörk sem eru tvær mínútur.)