149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni greininguna á þessu. Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvað veldur þessum sinnaskiptum. Ég tek undir það með hv. þingmanni að auðvitað á hv. þingmaður og þingforseti, Steingrímur J. Sigfússon, að gera grein fyrir því hvers vegna hann er búinn að skipta um skoðun. Ég held að það sé nokkuð ljóst. Það er nú mikið rætt um að efla traust almennings á störfum Alþingis og veitir ekki af. Núverandi skrifstofustjóri Alþingis sagði, að mig minnir, fyrir skömmu — þegar hann var spurður um það hvort hann hefði ekki áhyggjur af því að traust til Alþingis væri svona lítið og hvaða leiðir væru færar til að bæta það — að það fælist fyrst og fremst í því að stjórnmálamenn, þingmenn og ráðherrar, stæðu við það sem þeir lofuðu og stæðu við það sem þeir hefðu sagt.

Ég held að það sé einmitt kjarni málsins. Það er algjör kúvending í málflutningi hans — og nú tek ég fram að hæstv. þingforseti, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, hefur flutt margar mjög öflugar ræður og er mjög öflugur ræðumaður og sannfærandi — en þessar ræður sem hann flytur í kringum orkupakka eitt og tvö eru meðal hans bestu ræðna. Þess vegna kemur það mjög á óvart hvernig hægt er að skipta svona um skoðun og án þess að skýra það nánar. Það er það sem hv. þingmaður nefndi réttilega. Auðvitað skulda þingmenn og ráðherrar þjóðinni skýringar á svona breytingum í veigamiklum málum.