149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:07]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, samningsviljinn virðist vera þar fyrir hendi — og ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir þessa hugleiðingar og spurningu. Þetta getur ekkert verið skýrara. Þetta liggur þarna fyrir. Þetta er í samningnum, þetta er í lögunum og augljóst að við eigum auðvitað að fara þessa leið.

Ég man ekki eftir öðru máli — ég er ekki með langa reynslu sem þingmaður, en ég man ekki eftir öðru EES-máli síðan við innleiddum samninginn á sínum tíma sem hefur hlotið jafnmikla umræðu á þingi og þetta, en það getur vel verið að það leynist einhvers staðar þó að ég viti það ekki.

En þá er tækifærið einmitt núna til að nýta ákvæði samningsins og ekki síður, eins og ég hef margoft bent á, vegna þess að menn halda því fram að þeir mæti miklum skilningi hjá Evrópusambandinu og hjá EFTA-ríkjunum og benda þar t.d. á sameiginlega yfirlýsingu EFTA-ríkjanna um að tilteknir hlutar pakkans eða reglugerðanna gildi ekki á Íslandi meðan svona er ástatt, eins og margoft hefur komið fram, að við erum ekki tengd hinum sameiginlega raforkumarkaði Evrópusambandsins. Þess þá heldur að fara með þetta lögbundna leið.

Ég vil bara ítreka að menn eiga að gera það. Orð hafa heyrst frá stjórnarþingmönnum um að menn muni svo sannarlega gera það ef þörf verði á. Hvenær er þörf? Það voru orð sem voru sögð hér í gær, að menn myndu ekki hika við að leita þessara leiða ef þörf væri á. Nú teljum við þörf vera á.