149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég hef í sjálfu sér kannski ekki áhyggjur af þessum smávirkjunum, þ.e. þegar verið er að virkja bæjarlækinn eins og hv. þingmaður nefndi. Það eru þessar virkjanir sem eru undir 10 MW og þurfa þá ekki, ef ég skil þetta rétt, að fara í umhverfismat. Þeim umsóknum hefur fjölgað mjög mikið. Fyrirspurn hv. þm. Ólafs Ísleifssonar er mjög þörf og mikilvæg í þessu sambandi. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir umhverfisverndarflokk eins og Vinstri græna að mikil aukning komi til með að verða í raforkuframleiðslu, t.d. bara í vindorku en hún hefur mjög sjónræn áhrif í landslagi eins og við þekkjum. Allt skiptir þetta máli.

Það er einhver ástæða fyrir því að menn hafa svo mikinn áhuga á þessu núna. Maður hlýtur að tengja það því að hér sé verið að stíga skref í átt að því að hægt verði að selja rafmagn til Evrópu.