149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:22]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans seinni spurningu. Hann talar um áhyggjuefni fyrir umhverfissinna. Það er mesta áhyggjuefnið, það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Það er ekki áhyggjuefni að einstakir bæjarlækir eða minni ár séu virkjuð. Það er ekki síður það sem hann nefndi einmitt og það er vindorkan; ef það fer úr böndunum og menn fara að reisa vindmyllur um allar koppagrundir, ef ekki verður haldið utan um það. Ég átti orðastað við hæstv. ráðherra hér fyrr í vetur um þetta og hún taldi ekki þörf á að smíða sérstakt lagaumhverfi um vindorkuver á þessum tíma. Ég tel að mikil þörf sé á því og ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Við þurfum að vinna vel að þessu vegna þess að þetta er fyrirsjáanlegt. Stóraukning hefur orðið í Evrópu og við þurfum að búa okkur undir að þetta sé gert með skynsamlegum hætti með tilliti til umhverfisins.