149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:39]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir hans hugleiðingar. Hann nefnir að að fortíð skuli hyggja þegar framtíð skuli byggja og ég tek svo sannarlega undir það. Það var einmitt tilgangur minn með því að fara yfir þessa virkjunarsögu sem ég hef ekki enn lokið við, og mun væntanlega ljúka síðar í kvöld eða nótt, og ég tel að við megum mikið af því læra.

Hv. þingmaður nefndi hvernig æðakerfi orkunnar virkar, að henni sé dreift um landið og menn hafi haft áhyggjur af því að styrkja þyrfti það kerfi. Auðvitað er nauðsynlegt að byggja virkjanir, þó að ekki séu þær stórar, þar sem veikleikar eru í kerfinu og þar sem atvinnufyrirtæki eru til staðar sem veita þarf orku til, svo að ekki þurfi að færa hana um mjög langan veg með tilheyrandi afföllum af orkunni og veikleikum í kerfinu.

Hv. þingmaður vék einnig að ýmsum öðrum orkugjöfum sem við eigum svo sannarlega mikið af, óbeisluðum. Hann nefndi vindorkuna. Þar er svo sannarlega mikið óbeislað en þar sýnum við andvaraleysi. Hver er undirbúningur undir komu vindorkuvera? Hver er undirbúningurinn? Hver er lagagrundvöllurinn? Er búið að byggja hann þannig að við séum viðbúin? Þannig að við séum búin að ræða málið, hvernig við viljum sjá það gerast? Hvernig við viljum byggja það upp? Það hefur ekkert verið rætt. Ég hef kallað eftir því, í ræðum mínum og samræðum við hæstv. ráðherra, en ekki ber enn á að frumvarp þess efnis hafi komið hér inn.