149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:50]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég og hv. þingmaður vitum hvernig þetta gengur fyrir sig. Það er iðulega þrýst á stjórnmálamenn hér á landi og væntanlega í öðrum EES-ríkjum að vera duglegir að innleiða. Og af því að hv. þingmaður nefndi heimsókn norska ráðherrans og samtal við heyrúlluna get ég, bara til að nefna eitt dæmi, sagt frá því þegar við fórum ásamt norskum þingmönnum og raunar þingmönnum frá Sviss, Liechtenstein og fleiri löndum til að skoða Gullfoss. Í rútunni notuðu menn tækifærið og settust í kringum mann til að reyna að þrýsta á um að ég beitti mér í því að við færum að verða duglegri að innleiða eitt og annað sem þessir tilteknu Norðmenn vildu sjá okkur klára.