149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:10]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni kærlega fyrir andsvarið. Það er von að menn spyrji hvernig í ósköpunum standi á þessu ef ætlun stjórnvalda er þessi sem ég lýsti í ræðunni, að setja fyrirvara inn í löggjöf sem eigi að halda. Ég er satt að segja farinn að hallast að því af því að það er enginn skortur á lögfræðimenntuðu fólki, hvorki í þessum þingsal, í liði ráðherra né í ráðuneytunum þar sem lunginn af þessari vinnu fer fram, hvort ætlunin sé ekki bara að fara í fulla innleiðingu án þess að það séu nokkrir annmarkar. Er það ekki bara heildarmálið? Er ekki bara tjaldið fallið?

Er það ekki það sem stendur til? Ef það væri raunveruleg ætlun stjórnvalda að setja einhvers konar hömlur væri vissulega leiðin sú að fylgja lögum nr. 2/1993, samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, þá einkum 102. gr. þar og með tilvísan í 109., 97. gr. o.s.frv. Allar þær greinar sem ég hef farið nokkuð ítarlega yfir miða að því að þetta sé gert í fullri sátt og að EES-ríkin tali einum rómi, þ.e. að ekki séu settir slíkir fyrirvarar sem gera það að verkum að málsvörn eins ríkis sé ekki (Forseti hringir.) samhljóma annars ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins.