149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:47]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta er í samantekt sem haft er eftir prófessor Carl Baudenbacher. Hér stendur á enskri tungu, með leyfi forseta:

„Although there is the possibility of refusing the incorporation of new EU law into EEA law, the present case is not the appropriate occasion to pull the emergency brake.“

Héðan kemur þetta orð, neyðarhemill, og í næsta punkti segir hann aftur, með leyfi forseta:

„Iceland’s withdrawal from the Third Energy Package could jeopardise its membership in the EEA Agreement.“

Það er að ef við myndum draga okkur út úr þessum þriðja orkupakka og neita að staðfesta hann þá myndi það hafa þessi áhrif. Það myndi setja samninginn um Evrópska efnahagssvæðið í hættu. Það er bara ekkert annað.

Hvar finna menn slíkum yfirlýsingum stoð í lögum? Ég spyr mig að því. Ekki er það alla vega að finna í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ég viðurkenni að ég er ekki lögfróður maður, ég les þetta sem leikmaður. Engu að síður held ég að hér sé enn ríkari ástæða til að slíkar yfirlýsingar, og ef þetta er það sem ríkisstjórnin hengir hatt sinn á þá sé það stutt einhverjum rökum. Þetta sé þá rýnt af til þess bærum mönnum hvort þessar yfirlýsingar þessa ágæta manns séu hreinlega keyptar til að þær hljómi sem allra verst fyrir þá sem þurfa að taka afstöðu til málsins.