149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

fyrirvarar Norðmanna við þriðja orkupakkann.

[15:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að benda á það í fyrsta lagi að það er ágætt að taka málið upp við þá ráðherra sem fara með málaflokkinn sem hv. þingmaður fer hér inn á. Það er spurt um það hvers vegna ekki eru gerðir neinir fyrirvarar af Íslands hálfu sambærilegir þeim sem eru gerðir í Noregi. Það er í fyrsta lagi svo að við erum ekki með að öllu leyti sambærilega stöðu á Íslandi og á við í Noregi þar sem Noregur hefur tengst evrópska orkunetinu.

Að öðru leyti, fyrst hv. þingmaður spyr hvort menn séu meðvitaðir um fyrirvara sem hafi verið haldið á lofti í norska þinginu, þá spyr maður: Hvað er það í þeim fyrirvörum sem ekki er sambærilegt, fyrirvörum sem fyrir liggur að gerðir hafa verið á öllum stigum þessa máls, m.a. þegar Alþingi fékk það í samræmi við þinglega meðferð EES-mála á sínum tíma? Hv. þingmaður var á þeim tíma forsætisráðherra. Þá fékk þingið það til meðferðar að svara stjórnskipulegum álitamálum og öðrum þeim áhyggjum sem þingið hefði á fyrsta stigi máls.

Á sínum tíma, þegar ég var formaður í utanríkismálanefnd, lagði ég áherslu á það að við breyttum þinglegri meðferð þessara mála. Þetta mál féll einmitt inn í nýtt fyrirkomulag sem tryggði þinginu aðkomu á fyrstu stigum máls. Uppi voru við þá umræðu spurningar á borð við það hvort það væru stjórnskipuleg álitamál. Þingið komst að þeirri niðurstöðu að þau væru ekki. Önnur atriði sem þurfti að ræða voru tekin til umræðu. Það var tekið tillit til þess við lokafrágang málsins.

Að öðru leyti þá velti ég því upp hvaða atriði eru í þeim fjölmörgu fyrirvörum sem fyrir liggur að verða gerðir við innleiðingu þessa máls sem fullnægja ekki samanburðinum við Noreg og hv. þingmaður er að vísa til, þannig að við höfum eitthvað efnislegt til að tala um.