149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ósköp eðlilegt að þingmenn staldri við og velti því fyrir sér hvort sú töf sem orðið hefur á innleiðingu á orkupakka þrjú hér á Íslandi sé e.t.v. það besta sem komið hefur fyrir lengi. Sú töf sem orðið hefur á innleiðingunni gerir að verkum að nú sjáum við glitta í það sem bíður okkar í orkupakka fjögur. Við vitum að það eru aðilar í samfélaginu, hagsmunasamtök og fleiri, sem virðast hafa fengið einhverja kynningu á þessu. Í svari utanríkisráðuneytisins segir að starfandi sé starfshópur sem er að fjalla um orkupakka fjögur. Ég held að það sé ekki síst mikilvægt þess vegna að við stöldrum við og veltum spurningum upp og spyrjum hreinlega — höldum áfram að spyrja í von um að fá einhver svör frá þingmönnum stjórnarflokkanna eða þeim þingmönnum sem fylgja því að innleiða þennan orkupakka — hvort þeir hafi fengið kynningu á því hvað felst í fjórða pakkanum, hvort það sé mat sérfræðinga sem vinna fyrir ríkisstjórnina að innleiðing á fjórða orkupakkanum sé beint framhald, eðlilegt framhald, af orkupakka þrjú. Ef svo er hljóta stjórnarþingmennirnir að hafa fengið kynningu á því hvaða breytingar verða gerðar á orkuumhverfinu þegar fjórði pakkinn verður innleiddur.

Ég mun í ræðu minni á eftir leitast við að segja örlítið frá því að í dag var birt á heimasíðu Evrópusambandsins yfirlýsing og smáúttekt á því að búið sé að fara með þennan fjórða pakka í gegnum ferlið, ef ég hef skilið það rétt.