149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:14]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir andsvarið og vil, án þess að hafa til að bera sérfræðiþekkingu umfram aðra menn á pólitískum aðstæðum í Noregi, taka undir með greiningu hans og virðist mér sem tilgáta hans í þessu efni sé afar sennileg, að landið liggi með þeim hætti sem hann lýsti svo glögglega. Það vekur satt að segja óþægilegar minningar þegar við erum að tala um aðgerðir til að veikja viðnámsþrótt þjóðarinnar og í því tilliti í raun og sanni að skerða samningsstöðu hennar ef svo ber undir, samningsstöðu eigin lands, í þágu erlendra aðila.

Menn minnast fundahalda í samtökum sem stofnuð voru um það markmið að leitast við að lama þjóðina gagnvart erlendum kröfuhöfum sem vildu velta skuldbindingum sem heyrðu einkareknum banka til, yfir á íslenskan almenning, jafnvel þótt það kostaði óheyrilegar byrðar, m.a. í vaxtakostnaði sem átti að stofna til. Menn muna fjölmiðlaaðgerðir með sérhönnuðum hákarlaauglýsingum um að ef menn beygðu sig ekki og bukkuðu gagnvart hinu erlenda fjármálavaldið biði þeirra það eitt að vera gleyptir í hákarlskjaft. Það er auðvitað mjög óþægilegt, og sú aðgerð að kalla til erlendan lögmann sem kemur hingað og talar (Forseti hringir.) með þeim hætti sem raun ber vitni er mér svo sannarlega umhugsunarefni.