149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:38]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að skjalla forseta en tek undir orð hv. þingmanns varðandi hann. Ef ég sný mér svo að efni málsins er alveg ljóst að raforkuverð mun hækka og það er rétt að ekki verður leyfilegt, og hefur ekki verið leyfilegt um hríð, að niðurgreiða orkuverð, hvorki til heimila né fyrirtækja. Við getum haldið því fram að það sé litið svo á málin að allir eigi að vera svo jafnir. Það þýðir að við Íslendingar eigum að sætta okkur við að búa við hærra orkuverð af því að við ætlum að vera svo jöfn miðað við þá sem eru í Evrópusambandinu.

Ég er ekki viss um að það sé hægt og eðlilegt að jafna svona upp á við en það virðist vera þannig að við eigum bara hreinlega að samþykkja allt sem á borð er borið og eigum ekkert að reyna að spyrna við fótum þrátt fyrir að við getum algjörlega séð það í hendi okkar að það er best fyrir okkur ef við gætum ræktað allt okkar grænmeti hér á landi. Ef það á að verða þannig áfram er það vegna þess að orkuverð helst lágt, ekki vegna þess að við verðum öll svo jöfn að orkuverð muni hækka.