149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:33]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er atriði sem ég er búinn að velta mikið fyrir mér, m.a. í ljósi þess að Norðmenn telja sig, eins og hv. þingmaður nefndi, tiltölulega vinstri sinnaða og umhverfissinnaða með sínum hætti sem felst yfirleitt í því að þeir vilja ekkert virkja á Íslandi. Hvort tveggja ætti að vera til þess fallið að gera Vinstri græn að miklum baráttuflokki gegn innleiðingu þessa orkupakka. Vandamálið virðist vera það að Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur alveg sagt skilið við rætur flokksins, t.d. eru rætur í verkalýðshreyfingunni trosnaðar eða horfnar. Þessi í stað er þetta orðinn kerfisflokkur, flokkur sem fylgir leiðsögn kerfisins en vill gjarnan inn á milli fá að sinna einhverjum sérstökum hugðarefnum sínum eins og nýlegt mál frá hæstv. heilbrigðisráðherra er gott dæmi um. Þar létu hinir stjórnarflokkarnir teyma sig áfram og ætli Vinstri græn verði þá ekki að endurgjalda greiðann?