149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:46]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það var athyglisvert hvernig hann vitnaði hér í hæstv. fjármálaráðherra og hugleiðingar hans í þessum efnum. Ekki veitir af vegna þess að hann hefur tekið algera kúvendingu í skoðunum sínum hvað þennan orkupakka varðar og ekki á skemmri tíma en tæpu ári — frá því að hann flutti hér nokkuð merkilega ræðu þar sem hann hafði miklar áhyggjur af því að við værum að fara að innleiða orkupakka þrjú. Ef ég má vitna í þá ræðu, með leyfi forseta, segir á einum stað — og það er hæstv. fjármálaráðherra sem talar:

„Veltum því fyrir okkur hvað við höfum með það að gera á innri markaði Evrópu að vera að ræða raforkumál sem eru í einangruðu mengi á Íslandi úti í Brussel. Hvað höfum með það að gera að vera að ræða við önnur ríki Evrópusambandsins raforkumál af eyjunni Íslandi?“

Það er athyglisvert að fjármálaráðherra skuli síðan standa fyrir því að innleiða orkupakka þrjú, þvert á það sem hann hefur sagt hér í þinginu.

Það er fleira áhugavert í ræðu hæstv. fjármálaráðherra. Hann segir, með leyfi forseta:

„Það sem ég á svo erfitt með að skilja er áhugi hv. þingmanns og sumra hér á þinginu á að komast undir boðvald samevrópskra stofnana. Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana?“

Það er náttúrlega, frú forseti, hlægilegt að rifja upp þessa ræðu í ljósi þess að þessi sami hæstv. ráðherra vinnur nú að því hörðum höndum að keyra þetta mál hér í gegnum þingið til að komast undir (Forseti hringir.) boðvald sem hann áður hafði miklar áhyggjur af og vildi ekki koma nálægt. Í þessu samhengi, hv. þingmaður: Hvað finnst þér um svona málflutning?