149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:37]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Þetta er ekki alveg rétt hjá hv. þingmanni. Nú fer ég að óttast að hv. þingmaður hafi ekki fylgst með umræðunni sem hefur verið töluverð hér undanfarna daga og skýrt mjög margt, þar með talið þetta atriði. Það leikur einmitt verulegur vafi á því, myndu varfærnir menn segja, að það fyrirkomulag sem hér er um að ræða standist tveggja stoða kerfið. Í tilviki ACER, sameiginlegu evrópsku orkustofnunarinnar, er til að mynda gert ráð fyrir að hún fari með vald yfir svæðinu öllu, löndunum sem heyra undir Evrópska efnahagssvæðið, þó að ESA hafi einhvers konar hlutverk milligönguaðila í tilviki Íslands, Noregs og Liechtensteins, þ. e. að taka við bréfunum frá ACER, skila þeim áfram og fylgjast með því að menn starfi í samræmi við þau. Eins og fræðimenn hafa bent á er þetta ekki í samræmi við tveggja stoða kerfið eins og það var hugsað.