149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:39]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Þetta var einstaklega upplýsandi andsvar. Hv. þingmaður lýsir því hér að líta beri á þetta svokallaða tveggja stoða kerfi sem einhvers konar pótemkintjöld, að ákvæði um milligöngu eða bréfburðarþjónustu ESA sé sett á eingöngu til þess að þetta líti út fyrir að vera í samræmi við tveggja stoða kerfið, (Gripið fram í.) algjörlega án tillits til raunveruleikans.

Hv. þingmaður má þó eiga það að hann viðurkennir í framhaldinu að sá raunveruleiki sé sér mjög að skapi, (Gripið fram í.)að auðvitað eigi ACER að skrifa drögin, auðvitað eigi það að ráða þessu og auðvitað eigi ESA bara að hafa það hlutverk að koma skilaboðunum áfram.

En það er ekki í samræmi við tveggja stoða kerfið eins og það var hugsað í upphafi, hvort sem menn líta til umræðu um EES-samninginn í þinginu eða í öðrum þjóðþingum eða til ábendinga frá þeim sem hafa komið að þeirri vinnu á undanförnum misserum, (Forseti hringir.) ekki hvað síst frá Jóni Baldvini Hannibalssyni. Þá var tveggja stoða kerfið svo sannarlega ekki hugsað sem einhvers konar pótemkintjöld.