149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:42]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að minna mig á þetta. Þetta er einmitt alveg skýrt. Þessir mikilsmetnu fræðimenn líta ekki svo á að tveggja stoða kerfið sé hugsað sem einhvers konar blekking, einhvers konar málamiðlun, að ESA hafi upphaflega verið hugsað sem bréfburðarfyrirtæki til að koma skilaboðum frá Evrópusambandinu til íslenskra stjórnvalda. Við þetta bætast hins vegar áhyggjur mínar af því hvernig ESA hefur verið að þróast. Af þeim áhyggjum leiðir að ekki aðeins er þetta fyrirkomulag, með ESA sem einhvers konar milligönguaðila, í besta falli blekking heldur er hætta á því að þetta geti orðið til þess að allt þetta regluverk verði enn meira íþyngjandi fyrir Ísland en flest önnur Evrópulönd af því að ESA muni hafa tækifæri til að senda ábendingar til ACER ef ESA telur að Íslendingar fylgi ekki nógu vel eftir (Forseti hringir.) markmiðum stofnunarinnar.

Það má því segja að ESA sé hugsað sem nokkurs konar liðsauki í eftirliti ACER með Íslandi.