149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:45]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Ég bið hv. þingmann afsökunar á því að ég hef líklega ekki verið nógu afdráttarlaus. Þetta er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, þetta er algjörlega kristaltært. Það sem meira er, þetta er áminning um að með innleiðingu þriðja orkupakkans erum við að setja tveggja stoða kerfið í hættu. Við erum í raun að grafa undan báðum þessum stoðum, a.m.k. okkar stoð. Þar af leiðandi erum við að grafa undan EES-samningnum í heild. Akkúrat þetta dæmi er áminning um mikilvægi þess að þeir sem vilja verja EES-samninginn og nýta kosti hans láti til sín taka í þessu orkupakkamáli og beiti sér fyrir því að orkupakkinn verði ekki innleiddur með þeim hætti sem stjórnvöld hafa boðað, með hætti sem er til þess fallinn að veikja tveggja stoða kerfið og setja óforsvaranlegt fordæmi um hvernig það er túlkað.